Lagði af stað í morgun á hjólinu, ákvað að breyta til og fara aðra leið en venjulega. Að þessu sinni hjólaði ég í Fossvogsdalnum og fór síðan yfir holtið upp hjá Landspítalanum. Maður lifandi hve brekkan var löng upp á holtið. Ég var bókstaflega móð og másandi þegar upp var komin en gafst þó ekki upp. Verð að fara oftar þessa leið til að byggja upp meira brekkuþol. Reyndar var ég frekar ánægð með mig því að ég hjólaði fram úr konu einni, sem, sem er kannski ekki merkilegt en það eru alltaf allir að hjóla fram úr mér og bara gaman að geta stundum gert það líka. Einhver sagði “ vertu ekki að telja þá sem fara fram úr þér – frekar þá sem þú tekur framúr“ það verður mitt mottó hér eftir. Tók hina hefðbundnu leið heim. Það er alltaf svo miklu lygnara í Bökkunum að þegar ég kem upp úr Elliðaárdalnum sveitt eftir brekkuna, þá er aldrei vindur til að kæla mig niður. Ég þarf alltaf að reyta af mér fötin þegar þangað er komið. Norðan- og Norðaustanáttir ná sér ekki upp í Bökkunum og þar er meiri veðursæld en viða í Reykjavík og þetta er staðreynd. Elska að hjóla um Reykjavík og ég hlakka til að kynnast fleiri leiðum eftir því sem líður á sumarið,.