Það kom smá pása á bloggfærslur, kannski vika – ástæðan í byrjun var vinnuferð í sumarbústaði STAVÍS, þar sem ég var utan netsambands og þar á eftir var bara einhver leti í gangi. En nú eru hjólin farin að snúast aftur og ég hjólaði 13 km. í gær og fyrradag líka en ákvað að lengja leiðina í vinnuna núna og rúnturinn varð 21 km í dag.

Skellti mér úr Breiðholtinu niður Fossvogsdalinn og hjólaði með sjónum niður í Skerjafjörð og fór þaðan í gegn um bæinn upp Hverfisgötu, Laugaveg (efri hluta) og upp í Ármúla. Tók svo hefðbundnu leiðina heim. Bara nokkuð sátt við það.
Hef líka verið að dunda mér við að læra á kerfið hjá Key Habits en þeir sem það þekkja vita að þetta er 8 vikna netnámskeið eða rafrænt næringarvitundarnámskeið. Læri þar undirstöðuatriði sem eiga að hjálpa mér að ná næringar markmiðum mínum og læra á þá næringu sem ég þarf og hesthúsa daglega. Síðan nýtist þetta mér við markmiðasetningu og eigið heilsulæsi (líklega nýtt orð sem líklega þýðir að lesa í heilsu mína). Þettta er bæði spennandi og skemmtilegt og ráðgjafarnir halda manni alveg við efnið. Getur nýst þeim sem ætla að grenna sig, styrkja sig, bæta sig og bara alskonar fyrir sig.. þó ekki Drífa Sig eða raka sig.(djók) Ég verð mæld og vegin á morgun. Klipið í fellingar til að sjá hve fitusprengt kjötið er á beinunum. Svo koma markmiðin.