19. júní – kvennréttindadagurinn

Kvennréttindadagurinn!  Hvaða þýðingu hefur þessi dagur fyrir mig? Konu sem fædd er um 50 árum eftir að fertugar konur fengu kosningarétt?  Eru kvennréttindin búin að vera og jafnréttið komið þangað sem það sem hægt er að fara með það?  Ég er ekki alveg viss um að svo sé.

Konur hafa enn á sér þann stimpil að vera grimmari en karlar.  Hvers vegna segja menn það?  Sat til borðs með vinnufélögum mínum eitthvert hádegið og umræðan var um konur og karla í stjórnendastöðum og stjórnmálum og þá kom þessi frasi að konur væru miklu grimmari en karlar.  Ég varð að svara þessu …. bíddu en afhverju eru það þá aðallega karlar sem sitja í fangelsum fyrir ofbeldi, nauðganir og barnaníð?  Af hverju eru það oftast karlar sem fara í stríð og drepa hvern annan undir stjórn karlpeninga í stjórnunarsætum þjóða sinna.  Við erum ekkert grimmari en karlar og sagan hefur enga sönnun þess.

Annað hádegi á sama stað var verið að ræða um barneignir og hvort það væri léttara að ala upp stelpur en stráka.  Þá kom þessi frasi um að það væri svo mikið vesen með stelpurnar og það þyrfti að hafa svo miklar áhyggjur af þeim.. af því að þær geta orðið óléttar og þá lendir barnauppeldið á foreldrunum.  En auðvitað þurfti ég að koma með annan vinkil á það. .  Miklu fleiri strákar en stelpur lenda í að slasast í ökutækjatjónum, afbrotum, ofbeldisverknaði, svo eitthvað sé nefnt. Er það ekki meira vesen en að fá lítið barn í heiminn?   Fyrir utan það að fóstureyðingar eru leyfðar á Íslandi og talinn réttur kvenna til að ákveða hvort að barn kemur í heiminn eða ekki, enda líkami þeirra sem kemur til með að verða lagður til verkefnisins.  Er annars ekki hlynt því að nota þær sem getnaðarvanir en þær þurfa að vera frjáls möguleiki þeirra sem ekki vilja ganga með barn sem óvelkomið kemur undir.

Það er talið til heilbrigðis stráka þegar hann er duglegur að kanna fyrir neðan nafla náttúrunnar glímutök en stelpurnar valda endalausum áhyggjum ef þær hafa sama áhuga á hinu kyninu.  Útihátíðarnar bera þess merki að enn eru strákar sem telja það nauðsynlegt að taka sér stelpu ef engin vill þá fúslega og áhyggur feðranna af dætrum sínum eru enn auknar þegar þær ætla að skella sér á þessar hátíðar.  Þeir ættu ekki síður að hafa áhyggjur af strákunum sínum og ala þá upp í því að nei þýðir NEI.

Við höfum þrátt fyrir allt náð miklum árangri á Íslandi en betur má ef duga skal.  Mig dreymir um að framtíðin beri það í skauti sér að Ísland verði fyrirmynd annarra landa í jafnréttismálum og við eigum kannski ekki svo langt í land með það.  Vil ekki kynjakvóta og svoleiðis því að það setur okkur kynin í baráttuhug gegn hvoru öðru sem er það versta sem getur gerst.   Karlar ættu að taka þessa baráttu upp á sína arma og ganga til liðs við konurnar. Baráttan snýst ekki um að konur gegn körlum og öfugt.  Hún snýst um sameiginlega innbyggða hugsun, sjálfsprottna og án þess að vera beitt þvingunum.  Við þurfum að standa saman um að breyta hugsunarhætti okkar og byrja á okkur sjálfum.

Tel lykilatriði að kveðja fljótlega kvennabaráttu og færa okkur á þann stað að kalla þetta frekar jafnréttisbaráttu kvenna og karla.  Barátta um breytingu viðhorfa og gildismata.  Kannski þarf ég að verða 98 ára áður en því er náð en er vongóð því að á síðastliðnum 98 árum hefur okkur svo sannarlega orðið ágengt og einhversstaðar sagði einhver snillingurinn.. góðir hlutir gerast hægt.

Færðu inn athugasemd