Tjaldsvæðið á Akranesi

Tjaldsvæðið á Akranesi er staðsett í Kalmansvík sem er falleg vík í útjaðri bæjarins. Það er mjög falleg fjallasýn til norðurs þar sem Snæfellsjökull ber af. Þetta er sú lýsing sem kemur fram á síðunni tjalda.is og þetta passar fullkomlega. Hvað ég vildi vera stolt af tjaldsvæðinu í heimabæ mínum Akranesi en það er því miður ekki þannig.

Við Gummi leigjum húsið okkar út í Airbnb á sumrin og dveljum því oft á tjaldsvæðinu. Fegurðin og útsýnið er ólýsanlegt og því er miður hversu lítill metnaður er lagður í að hafa aðstöðuna í topp standi. Það væri svo frábært ef passað væri upp á grasflatir þegar þær eru viðkvæmar og blautar þegar rignir mikið. Þess í stað eru þær spændar upp af bílum sem spóla á grasinu og flatirnar breytast í drullufen sem ekki lagast þá allt sumarið þótt þær þorni. Það væri hugmynd að að hafa stæðin sem eru næst sjónum bara malarstæði fyrir húsbílana og passa þá upp á hinar flatirnar svo að hjólhýsi og tjöld geti lagt þar.

Klósettaðstaða er þokkaleg en það má gera betur með sturturnar. Þetta eru pínulitlir klefar og það er ekki hægt að læsa þeim. Skítastuðullinn er frekar lágr og mér finnst ekki spennandi að fara í sturtu þegar ég get átt von á því að ætt verði inn á mig.

Vegaslóðar inni á tjaldsvæðin eru holóttir og pollar því fljótir að myndast. Það væri nú ekki flókið að fylla reglulega í holurnar með möl.

Verð hafa hækkað en aðstaða hefur að sama skapi ekki lagast.

Verð 2024

Verð fyrir fullorðna: 2.000 kr.
Frítt fyrir 14 ára og yngri
Ellilífeyrisþegar og öryrkjar: 1.500 kr.
Rafmagn á sólarhring: 1.300 kr.
Þvottavél: 400 kr.
Þurrkari: 400 kr.
Gistináttaskattur leggst svo ofan á hverja færslu (fjölskylda)

Færðu inn athugasemd